Beint flug til San Francisco

Eina leiðin til að átta sig á aðdráttarafli Borgarinnar við flóann, er að sjá hana með eigin augum – og þá rennur kannski upp fyrir manni hvaðan innblásturinn fyrir öllum þessum lögum sem fjalla um hana kemur. Hún er dásamleg blanda tæknilegs frumleika og afslappaðs viðhorfs til lífsins, í faðmi stórbrotinnar náttúru. 

Icelandair býður upp á beint flug til San Francisco frá Keflavík og verður flogið yfir sumartímann. 

San Francisco
Bandaríkin

Fólksfjöldi: 865.000 (2017)

Svæði: 124 km²

Samgöngur: The BART (e. Bay Area Rapid Transit) er viðamikið lestarkerfi sem gengur um San Francisco Bay-svæðið, þar með talið flugvellina. Í hjarta borgarinnar sér Muni um strætisvagna, sporvagna og hina margrómuðu togbrautarvagna. Einnig er vinsælt að leigja hjól, sérstaklega til að kynnast ströndinni aðeins betur og skella sér yfir Golden Gate-brúnna.

Gjaldmiðill: Bandaríkjadalur

Spennandi hverfi: The Mission – SoMA – Marina — Pacific Heights – Hayes Valley – Russian Hill

Stórfengleg í alla staði

San Francisco er ekki síður heimsborg en New York, helsti munurinn er e.t.v. loftslagið. Hér er hlýrra og sólríkara og andrúmsloftið því afslappaðra og áhyggjulausara. San Francisco er hreint út sagt stórfengleg og sumt af því sem sjá má í borgarlandslaginu er þekkt um allan heim. Þú hefur ef til vill ekki komið hingað áður, nema kannski óbeint í óteljandi kvikmyndum, tímaritum og á póstkortum. Við nefnum hér nokkra þekktustu staðina: Golden Gate Bridge, Alcatraz, og Kínahverfið sem er með eigin skóla, sjúkrahús og þjóðlega veitingastaði í hæsta gæðaflokki. Jafnvel þeir sem hafa aldrei til San Francisco komið þekkja brattar hæðir og götur sem birst hafa í spennumyndum frá Hollywood, þar sem sjá má lögreglubíla fljúga fremur en aka niður brekkurnar í æðisgengnum eltingaleik. Þessar hæðir eru eitt megineinkenni San Francisco, því borgin er byggð á 43 misháum hæðum.

Читайте также  04/26/2010 | 12:00 AMIcelandair flytur flug síðdegis frá Akureyri til Keflavíkurflugvallar

Ilmurinn af San Fran

Í gegnum tíðina hefur mikið verið rætt um stórfenglega matargerð borgarinnar – og ekki að ástæðulausu. Í San Francisco eru fleiri veitingastaðir á hvern íbúa en annars staðar í Norður-Ameríku, auk ómótstæðilegra bændamarkaðanna. Margar vinsælar matarhefðir hafa orðið til hér og í boði er úrval sem er engu líkt, allt frá flotum af matartrukkum yfir heilu stjörnuþokurnar af Michelin-veitingastöðum, með viðkomu í dim sum í Kínahverfinu. Hér finna gestir fyrir það samkrull matreiðsluhefða sem Kalifornía er þekkt fyrir enda áhrifin bókstaflega úr öllum áttum. 

Helsta aðdráttaraflið, hin aldargamla Ferry-bygging, er næsta heilagt – hof helgað réttum af svæðinu. Utandyra fer fram bændamarkaður þrisvar í viku, innandyra bíða framleiðendur í röðum með vörur sem þú færð vatn í munninn yfir og fjölmargir staðir sem hægt er að setjast niður og bragða á. Þegar spurt er í hvaða hluta borgarinnar er best að seðja hungrið, vandast valið. Allir kostir eru góðir, en það verður enginn svikinn í fjölmenningarhverfunum Mission, Marina og Hayes Valley. 


Hátíska og háttur heimamanna

Verslunarflóran í San Francisco er einstaklega heillandi, frá hátískuverslunum og fatamörkuðum yfir í listagallerí og sælkeramat, að ógleymdum öllum tónlistar- og bókaverslunum sem sæma stórskemmtilegri stórborg.

Union Square er drottning allra verslunarhverfa, þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi en þar er að finna fjölmargar stórverslanir og gott úrval af munaðarvörum. Einnig er auðvelt að finna alls kyns sérviskulega minjagripi af San Francisco sem fanga sköpunargleði borgarinnar. Fyrir þau sem vilja, skellið ykkur þá í eitt af hinum þjóðþekktu hverfum San Francisco. Haight-Ashbury er miðpunktur frjálsra ásta og hippamenningar, á meðan Valencia Street hefur að geyma heillandi kaffihús og ótrúlegar veggmyndir (ekki sleppa því að skoða Balmy Alley). LGBTQ menningin blómstar svo í The Castro, á meðan 24th Street í hinu fallega Noe Valley hverfi er tilvalin fyrir búðarráp og bragðgóðan bita.