Beint flug til Gautaborgar

Næst stærstu borgir Skandinavíu falla oft í skuggann af höfuðborgunum en þær eru þó allar tilvaldar fyrir framúrskarandi helgarferðir. Gautaborg er önnur stærsta borg Svíþjóðar, falleg og býður upp á ýmislegt eins og frábæran mat, verslanir, hátíðir, græn svæði og barnvæna afþreyingu. 

Icelandair býður upp á ódýr flug reglulega til Gautaborgar þar sem ferðalangar geta ferðast um borgina í sporvögnum, farið í rússíbana, hlustað á lifandi tónlist eða borðað á Michelin-stjörnu veitingastöðum. 

Gautaborg
Svíþjóð

Fólksfjöldi: 580.000

Svæði: 447,8 km²

Samgöngur: Rútur keyra á 20 mínútna fresti milli flugvallarins og miðbæjarins. Innanbæjar ganga strætis- og sporvagnar um allt, auk þess sem ferjur sigla eftir skipaskurðum bæjarins og út á eyjarnar fyrir utan.

Gjaldmiðill: Sænsk króna

Spennandi hverfi: Haga — Avyen — Eriksberg — Lindholmen

Heillandi síki og spennandi skemmtigarðar

Byrjaðu á gönguferð niður aðalbreiðstræti borgarinnar – Kungsportsavenyn (oft aðeins kölluð Avenyn). Höfuðið á eftir að hringsnúast þar sem margt grípur athygli manns á þessu líflega stræti. Þar eru óteljandi kaffihús, barir, verslanir og smá útúrdúr frá strætinu á eftir að leiða þig að úrvals söfnum og galleríum. Við suðurhluta Avenyn stendur mikilfengleg stytta af Poseidon sem setur tóninn fyrir einn af hápunktum Gautaborgar: Liseberg. Þetta er stærsti skemmtigarðurinn í Skandinavíu og leiktækin, tónleikarnir og grænu garðarnir hafa eitthvað fyrir fólk á öllum aldri. 

Menningarlegar gersemar er einnig að finna við síki og vatnsbakka Gautaborgar; skoðunarferðir um síkin, bátsferðir til virkisklæddra eyja og einstakt, nútímalegt óperuhús. Það er varla hægt að komast hjá fortíð Gautaborgar sem siglingaveldi og skemmtilegheitum niður við höfn á Maritiman. Þetta fljótandi safn státar af skipum, þar á meðal kafbáti, herskipum og dráttarbátum. 

Fínni réttir, ferskur fiskur og „fika“

Читайте также  04/25/2013 | 12:00 AMRúmlega 150 manns á leið í ferð með styrk Vildarbarna

Gautaborg er stórtæk þegar kemur að skandinavískri matargerð og Michelin-stjörnur prýða þar fjölmarga veitingastaði. Fínni veitingstaðir eru kannski þeir sem njóta mestrar athygli, en matarmarkaðir, svöl kaffihús og líflegar verandir undir berum himni eru ekki minna áhugaverð. Kannið aðalmatarmarkaðinn (Saluhallen) til að slá á hungrið eða gæðið ykkur á lautarferðarkörfu. Unnendur sjávarfangs ættu ekki að láta „fiskikirkjuna“ (Feskekörka) framhjá sér fara en þar fást svör við öllum bænum — svo lengi sem bænir þínar miðast við kynstrin öll af ljúffengum fiskiréttum.  

Avenyn er einnig heimastaður vinsælla veitingastaða og kráa en Haga-hverfið hefur jarðbundnari anda og mikinn þokka. Inn á milli timburhúsanna eru notaleg kaffihús sem tilvalið er að setjast niður á. Ekki missa af tækifærinu til að taka fika – kaffipásu að sænskum hætti. Þetta er hefð sem markar djúp spor í sænskri menningu svo um að gera að njóta kaffibolla og fá sér eitthvað sætt með honum að hætti heimamanna.


Brunað úr bænum

Suður af Gautaborg er Halland-strandlengjan. Hún státar af sandströndum og tjaldsvæðum sem virka eins og seglar á Svía á leið í sumarfrí. Í hina áttina liggur Bohuslän-strandlengjan sem er eitt fallegasta náttúrusvæði landsins. Grýttar smáeyjur Bohuslän eru prýddar rauðum litlum húsum, sjávarþorpum, fiskmatsölustöðum og smábátahöfnum fullum af snekkjum. Heimsókn þangað er eins og að stíga inn í auglýsingu fyrir hina fullkomnu Svíþjóð.  

Þú getur auðveldlega fengð það besta af Bohuslän á Marstrand en eyjan er í klukkustundarfjarlægð frá Gautaborg og er sumarleyfisstaður fyrir snekkjueigendur og sænsku konungsfjölskylduna. Ef þín hugmynd um að flýja annríkið í bænum liggur frekar í kyrrlátri náttúrufegurð og minni glamúr þá er það líka möguleiki. Ferð inn til landsins frá Gautaborg tekur þig til Dalsland-héraðsins, skógivöxnu svæði við falleg vötn.