09/02/2013 | 12:00 AMIcelandair tilkynnir umfangsmikinn vöxt 2014

  • Áætluð fjölgun farþega um 350 þúsund milli ára
  • Beint flug til 38 áfangastaða
  • Þremur Boeing 757 flugvélum bætt við flugflotann
  • Edmonton og Vancouver í Kanada og Genf í Sviss nýir áfangastaðir
  • Tvöföldun starfseminnar á fimm ára tímabili

Flugáætlun Icelandair fyrir árið 2014 verður sú stærsta í sögu félagsins og um 18% umfangsmeiri en á þessu ári. Flug verður hafið til þriggja nýrra áfangastaða og ferðum fjölgað til ýmissa borga í Norður-Ameríku og Evrópu. Gert er ráð fyrir að farþegar Icelandair verði rúmlega 2,6 milljónir á árinu 2014, en eru á þessu ári um 2,3 milljónir. Alls verður 21 Boeing-757 flugvél nýtt til farþegaflugsins næsta sumar, þremur fleiri en á þessu ári. Með nýjum loftferðasamningi milli Íslands og Kanada á þessu ári opnast félaginu aukin og áhugaverð tækifæri í flugi milli landanna og tengiflugi til Evrópulanda.

Mikill innri vöxtur hefur einkennt starfsemi Icelandair undanfarin ár og er áætlun sú sem nú er kynnt fyrir árið 2014 um það bil tvöfalt umfangsmeiri en áætlun ársins 2009. Ferðir frá landinu verða um 9000 en voru um 4.500 fyrir fimm árum. Þá voru farþegar um 1,3 milljónir eða um helmingur þess fjölda sem gert er ráð fyrir á næsta ári. Gera má ráð fyrir að ferðamönnum til Íslands haldi áfram að fjölga á næsta ári vegna þessarar aukningar.

Auk flugs til nýju áfangastaðanna Edmonton, Vancouver og Genfar mun Icelandair fjölga ferðum næsta sumar til flestra núverandi áfangastaða. Þannig verður bætt við 14 flugum vikulega til Norður-Ameríku og 21 vikulegu flugi til Evrópuborga eða í heild 35 flugum, farið úr um 220 brottförum frá Keflavíkurflugvelli á viku á þessu ári og í 254 brottfarir að meðaltali næsta sumar.

Читайте также  02/16/2016 | 12:00 AMIcelandair fyrst evrópskra flugfélaga með þráðlaust Internet frá flugvelli til flugvallar

„Við sjáum áframhaldandi góð tækifæri til vaxtar á næsta ári og ætlum að nýta þau“, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair. „Við erum að ná árangri á alþjóðamarkaðinum milli Norður-Ameríku og Evrópu um þessar mundir og áætlunin fyrir næsta ár er einkum gerð til þess að styrkja enn stöðu okkar á þeim markaði. Við gerum einnig ráð fyrir að geta fjölgað ferðamönnum til Íslands, líkt og á þessu ári, og þessi stóra áætlun Icelandair gefur sömuleiðis Íslendingum ný og spennandi  tækifæri til ferðalaga og viðskipta“.

Edmonton, Vancouver og Genf nýir áfangastaðir

Flugið til Edmonton, höfuðborgar Albertafylkis, hefst 26. mars og stendur fram yfir áramótin 2014/15. Flogið verður fjórum sinnum í viku.  Atvinnulíf og efnahagur í Edmonton er í miklum blóma og íbúar þar, sem eru 1,2 milljónir, byggja einkum á ríkulegum náttúruauðlindum í fylkinu. Þar er sömuleiðis öflugt háskóla- og vísindasamfélag. „Við teljum samkeppnisstöðu okkar í tengiflugi milli Evrópu og Edmonton mjög góða og sjáum möguleika á heilsársflugi í framtíðinni til borgarinnar“, segir Birkir. Í borginni og í Albertafylki býr mikill fjöldi fólks af norrænum uppruna og þar á meðal tugir þúsunda af íslenskum ættum. Í Edmonton er auk þess stærsta verslunarmiðstöð í allri Norður-Ameríku.

Flugið til Vancouver verður tvisvar í viku frá 13. maí til 12. október.  Borgin er sú stærsta á vesturströnd Kanada með um 2,3 milljónir íbúa. Hún er þykir afar falleg og er iðulega valin eftirsóttasta og besta borg í heimi til búsetu. „Flug okkar til Seattle, sem er sunnan landamæranna á vesturströnd Bandaríkjanna, hefur gefið góða raun og við teljum flug til Vancouver gefa okkur nýja möguleika sérstaklega í tengiflugi til og frá Norðurlöndunum“, segir Birkir. „Það má líka gera ráð fyrir töluverðum fjölda ferðamanna til Íslands frá borginni og að hún verði vinsæl meðal Íslendinga“.

Читайте также  01/14/2010 | 12:00 AMVél Icelandair með björgunarsveit til Haiti

Flugið til Genfar hefst 24. maí og verður flogið tvisvar í viku til 23. September. Genf er gamalgróin söguleg borg og mikil miðstöð alþjóðastofnanna enda er stór hluti um 1,1 milljón íbúa af erlendu bergi brotinn. Hún stendur við Genfarvatn vestast í Sviss við landamæri Frakklands. „Við hófum flug til Zurich í Sviss í vor og það hefur gengið afar vel. Við mun auka tíðni þangað og lengja ferðatímabilið og bætum nú Genf inn til þess að anna þeirri eftirspurn sem við teljum að sé á þessum markaði. Stærstur hluti farþeganna verða ferðamenn á leið í Íslandsferð“, segir Birkir.