06/30/2010 | 12:00 AMIcelandair bætir 200 flugum við vetraráætlun

Áætlun Icelandair í vetur verður um 14% umfangsmeiri en hún var síðasta vetur. Icelandair mun fljúga til alls 15 áfangastaða austan hafs og vestan. Að meðaltali verða 82 flug frá Íslandi í viku á tímabilinu frá nóvember og út mars, eða 10 fleiri en á síðasta vetri. Á fimm mánaða tímabili, í nóvember, desember, janúar og febrúar og mars verður flugum fjölgað um 200 í heild. Flogið verður til 11 borga í Evrópu og 4 borga í Norður-Ameríku. 

Helsta breytingin frá fyrra vetri er að flugferðum er fjölgað bæði til borga Evrópu, svo sem Parísar, Frankfurt, Amsterdam og Kaupmannahafnar og einnig til Seattle, New York og Orlando í Bandaríkjunum. Að auki verður flogið til Helsinki fram yfir áramót, sem er 2 mánuðum lengur en undanfarin ár. Að lokum verður flogið til Munchen í Þýskalandi frá lokum janúar fram til mars, en það er í fyrsta sinn sem félagið flýgur til Munchen á þessum tíma árs. Einnig er  flug til fjölmargra áfangastaða aukið bæði nú haust og næsta vor, þ.e. í október og apríl/maí til þess að lengja ferðamannatímann.

«Þrátt fyrir miklar sveiflur í rekstrarumhverfinu er útlitið nokkuð bjart og við erum að auka töluvert við framboðið milli ára», segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair. «Eftir að efnahags- og gengishrunið á árinu 2008 stöðvaði nánast utanferðir Íslendinga breyttum við áherslum hratt og náðum að auka mjög hlutfall erlendra ferðamanna í vélum okkar í staðinn. Eldgosið í vor dró hins vegar mjög úr bókunum þeirra tímabundið en  Norður-Atlantshafsmarkaðurinn hefur verið sterkur. Nú sjáum við að bókanir Íslendinga til útlanda eru að aukast og bókanir til landsins í haust lofa góðu í kjölfar kynningarátaksins Inspired by Iceland. Þessi mikli sveigjanleiki Icelandair og geta til þess að laga sig að sveiflum gefur okkur tækifæri til þess að bæta nú við framboðið», segir Birkir.

Читайте также  Flug til Denver

Í vetur mun Icelandair fljúga til höfuðborga Norðurlanda, Kaupmannahafnar, Osló, Stokkhólms og Helsinki, til London, Manchester og Glasgow  í Bretlandi og til Amsterdam, Frankfurt, Parísar og Munchen á meginlandi Evrópu. Áfangastaðir vestanhafs eru Boston, New York, Orlando og Seattle. Nú í sumar flýgur Icelandair auk þess til borganna Stavanger, Bergen, Þrándheims Helsinki, Brussel, Berlín, Dusseldorf, Munchen, Barcelona, Madrid, Mílanó, Halifax, Toronto og Minneapolis.