05/02/2011 | 12:00 AMIcelandair og JetBlue tilkynna samstarf

Icelandair og bandaríska flugfélagið JetBlue Airways kynntu í dag samstarf flugfélaganna sem meðal annars felur í sér sölu og farseðlaútgáfu á flugleiðum hvors annars. Viðskiptavinir Icelandair geta nú keypt einn farseðil frá Íslandi til þeirra tuga bandarísku borga sem JetBlue flýgur til og jafnframt geta viðskiptavinir JetBlue keypt miða til Íslands og Evrópulanda með flugi Icelandair. Forystumenn félaganna undirrituðu samninginn í New York og hann tekur gildi á morgun

„Þetta er mjög ánægjulegt. JetBlue nýtur mikilla vinsælda og er á stuttum tíma orðið stærsta flugfélagið sem flýgur innanlands í Bandaríkjunum út frá Boston og New York. Það gerir afar fáa samstarfssamninga við önnur flugfélög og við væntum þess að samningurinn styrki leiðakerfi okkar og þjónustu“, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.

JetBlue er lággjaldaflugfélag sem hefur skapað sér sérstöðu með óvenjulegri og góðri þjónustu og er einkum þekkt fyrir að bjóða upp á beinar sjónvarpsútsendingar í vélum sínum, leðursæti og mikið sætabil. Það flýgur til 64 borga í Bandaríkjunum og yfir 700 flug á dag. Icelandair er frá og með deginum í dag eitt fjögurra flugfélaga í Evrópu sem JetBlue er í samstarfi við, en hin eru Air Lingus, Virgin Atlantic og Lufthansa.

„Ég fagna mjög þessu samstarfi og því að tengja viðskiptavini JetBlue við leiðakerfi Icelandair í flugi til Íslands og til Norðurlandanna og Evrópu. Þessi tvö félög eiga margt sameiginlegt og ég hlakka til þess að sjá samstarfið vaxa í framtíðinni“, segir Dave Barger, forstjóri JetBlue Airways.

Icelandair flýgur frá Keflavíkurflugvelli til borganna Boston, New York, Seattle, Minneapolis, Orlando, Toronto, Halifax í Norður-Ameríku og í vor hefst áætlunarflug til Washington. Þá flýgur Icelandair til yfir 20 Evrópuborga í sumar.

Читайте также  10/26/2016 | 12:00 AMIcelandair gengur í samtökin A4E, Airlines for Europe

 „Við höfum nú á stuttum tíma gert nokkra mikilvæga samstarfssamninga við flugfélög beggja vegna Atlantshafsins þ.e. við Finnair, SAS, Alaska Airlines og nú við JetBlue. Þessir samningar eru í samræmi við þá stefnu okkar að tryggja sjálfstæði Icelandair og sérstöðu í alþjóðafluginu, en um leið að opna fyrir samskiptaleiðir og samstarf við önnur flugfélög“, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.

Á meðfylgjandi mynd eru Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair og Dave Barger forstjóri JetBlue, í miðið, og með þeim Scott M. Laurence, framkvæmdastjóri leiðakerfisstjórnunar hjá JetBlue og Helgi Már Björgvinsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair.